Á haustþingi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi sem haldið var á Vopnafirði 18. september voru menningarverðlaun SSA afhent Björgu Einarsdóttur. Björg hefur í meira en fjóra áratugi verið burðarás í menningarlífi Vopnafjarðar og helsti drifkrafur í starfi Minjasafnsins á Bustarfelli þar sem hún hefur starfað bæði sem safnstjóri og staðarhaldari af mikilli elju og fórnfýsi.
Starf hennar hefur ekki aðeins falist í stjórnun heldur einnig í daglegum verkefnum sem fylgja rekstri torfbæjar og hefur hún sinnt því af mikilli ábyrgð og að mestu í sjálfboðavinnu. Síðastliðið vor lét hún af störfum en sonur hennar tók við keflinu.
Auk starfs við safnið hefur Björg tekið virkan þátt í samfélagsmálum á Vopnafirði, meðal annars í kvenfélagi, veiðifélagi og safnaðarstarfi. Hún hefur komið að fjölda sýninga og fræðsluverkefna og unnið að útgáfu rita um Bustarfell og sögu svæðisins.
„Störf sín fyrir safnið hefur Björg unnið af alúð og umhyggju og hefur hún alltaf borið hag Minjasafnsins fyrir brjósti,“ sagði Berglind Harpa Svavarsdóttir, formaður SSA, þegar menningarverðlaunin voru afhent.
Stjórn SSA sagði Björgu vel að verðlaununum komna fyrir ómetanlegt framlag til menningar og samfélags í fjórðungnum. Menningarverðlaun SSA voru fyrst veitt árið 1999 og með þeim er heiðrað fólk og stofnanir sem hafa lagt sérstakt lóð á vogarskálarnar fyrir menningarlíf á Austurlandi.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn