Tilkynnt hefur verið um úthlutun úr Barnamenningarsjóði Íslands fyrir árið 2024. Sjóðurinn styrkir 41 metnaðarfullt verkefni og er heildarupphæð úthlutunarinnar 102,4 milljónir króna. BRAS, menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi, fékk styrk úr sjóðnum, sjötta árið í röð, að þessu sinni að upphæð 5.000.000 kr.
BRAS hátíðin er haldin að hausti og verður meginþorri viðburða í september og október. Yfirskrift hátíðarinnar í ár er Uppspretta. Samstarf verður við fjölda listafólks, stofnanir, skóla, söfn og sveitarfélög á Austurlandi auk þess sem komið hefur verið á samstarfi við Listaleypurin í Færeyjum og verður áhugavert að sjá hvert þetta nýja samstarf leiðir okkur.
Yfirskrift hátíðarinnar í ár hefur fjölbreytta skírskotun; við ætlum að skoða uppsprettu nýrra hugmynda og hugmyndaauðgi, leggja áherslu á uppsprettu nýs samstarfs og uppsprettu vinskapar sem myndast milli barna og ungmenna frá ólíkum byggðakjörnum þegar þau vinna saman í smiðjum og vinnustofum. Þá getur uppspretta verið einhvers konar niðurstaða, þ.e. að upp spretti börn og ungmenni sem átti sig á hæfileikum sínum, sem þau uppgötva í eigin sköpun og þátttöku í listar- og menningarviðburðum. Síðast en ekki síst ætlum við að búa til nýjan vettvang á samstarfi við frændfólk okkar í Færeyjum, en ferjan Norræna, sem siglir milli Seyðisfjarðar og Færeyja gerir okkur kleift að skiptast á listafólki og ungmennum, þegar fram í sækir.
Einkunnarorð BRAS eru sem fyrr Þora! Vera! Gera! og eru lýsandi fyrir meginmarkmið BRAS, að börn og ungmenni á Austurlandi þori að vera þau sjálf og framkvæma og taka þátt í viðburðum á eigin forsendum. Önnur markmið BRAS eru að bjóða börnum og ungu fólki á Austurlandi upp á list- og menningarviðburði,vinnustofur í heimabyggð þar sem aðgengi allra er tryggt, óháð kyni, trún, tungumáli eða búsetu. Að tryggja þeim aðgang að ólíkum listformum, að opna augu þeirra fyrir samveru og samstöðu, að gefa þeim tækifæri til að kynnast á nýjan hátt, stuðla að aukinni virðingu og umburðarlyndi. Þá er mikilvægt að hjálpa þeim að meta fjársjóðinn sem felst í aðgengi að ólíkum menningarheimum, að byggja brýr á milli þjóðerna, aldurshópa og byggðakjarna. Markmiðið er að kynna BRAS fyrir samfélaginu á Austurlandi sem einn af stærri menningarviðburðum á svæðinu. Menningarmiðstöðvarnar þrjár á Austurlandi bjóða upp á árlega list- og menningarfræðslu inn í skólana, auk þess sem Minjasafn Austurlands mun áfram taka virkan þátt.
BRAS verður áfram í samstarfi við List fyrir alla, sem sendir listafólk inn í alla grunnskóla á Austurlandi. Þá fögnum við nýjum samstarfsaðilum, en bókasöfnin í Múlaþingi og Fjarðabyggð ætla að taka þátt með því að bjóða uppá viðburði og smiðjur í söfnum fjórðungsins, Sveitarfélögin Múlaþing, Vopnafjarðarhreppur og Fjarðabyggð eru áfram í góðu samstarfi við framboð og kynningar á viðburðum auk þess sem Skriðuklaustur er nýr samstarfsaðiliþ
Það er því ljóst að hátíðin í ár verður fjölbreytt og mjög glæsileg. Vonir standa til að enn fleiri börn og ungmenni, ásamt forráðamönnum gefi sér tíma til að taka þátt, upplifa og njóta í heimabyggð og að hátíðin í ár verði uppspretta hugmyndaauðgi, sköpunar, vináttu, víðsýni, nýrra og falinna hæfileika og alls hins góða sem BRASið hefur upp á að bjóða.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn