BRAS 2024 – menningarhátíð barna og Ungmenna á Austurlandi er hafin af fullum krafti og nú þegar hafa nokkrir skemmtilegir viðburðir farið fram.

Um miðjan ágúst var boðið upp á smiðjur á Seyðisfirði þar sem leir og vatn gegndu lykilhlutverki. Í september bauð List fyrir alla öllum grunnskólabörnum upp á Svakalegu sögusmiðjuna með þeim Blæ Guðmundsdóttur og Evu Rún Þorgeirsdóttur. Því til viðbótar buðu BRAS og List fyrir alla upp á opna smiðju í Bókasafninu á Egilsstöðum þar sem var húsfyllir. Í síðustu viku voru þær Sunna Gunnlaugs og Marína Ósk á ferðinni í grunnskólum Fjarðabyggðar og spiluðu jazz fyrir alla árganga skólans. Börnin kunnu vel að meta og tóku vel undir í lokalaginu sem var Í síðasta skipti eftir Friðrik Dór. Alla þessa viku hafa bókasöfnin í Múlaþingi boðið upp á Töfrasmiðjur í bókasöfnunum sem hafa verið mjög vel sóttar.

Í vikunni hafa 70 krakkar, annars vegar úr 4. bekk Egilsstaðaskóla og hins vegar af miðstigi Fellaskóla, komið í BRAS-heimsókn á Minjasafn Austurlands til að skoða sýninguna Landnámskonan sem nú stendur yfir í Minjasafni Austurlands á Egilsstöðum. Þar er fjallað um fornleifauppgröftinn í Firði og Fjallkonuna svokölluðu sem fannst á Vestdalsheiði árið 2004. Krakkarnir fengu leiðsögn um sýninguna, veltu fyrir sér störfum fornleifafræðinga og lífinu á landnámsöld, skoðuðu gripina sem til sýnis eru, spreyttu sig á hnefatafli og rúnalestri og mátuðu víkingaföt. Sýningin mun standa yfir til loka september og skólar geta bókað heimsóknir þangað til.

Spennandi viðburðir fram undan

Um helgina verða tvær kvikmyndasmiðjur en þar ætlar Auðdís Tinna að kenna unga fólkinu okkar að gera mínútulangar kvikmyndir. Enn eru laus sæti í þær smiðjur, önnur verður á Eskifirði og hin á Egilsstöðum.  Skráning fer fram í gegnum netfangið  [email protected]

Nú er verið að undirbúa stjóra sýningu sem BRASið tekur þátt í. Minjasafn Austurlands, Sláturhúsið og List fyrir alla munu bjóða öllum börnum á miðstigi í grunnskólum Austurlands á leiksýningu og munasýningu um Kjarval. Undirbúningur stendur nú sem hæst.

Einnig verður boðið upp á víkinga- og fornleifasmiðju í safninu. Boðið verður upp á barnvæna leiðsögn, fornleifasmiðju þar sem þátttakendur fá að bregða sér í hlutverk fornleifafræðinga og grafa eftir þykistu fornleifum, víkingabúningamátun, hnefatafl og fleiri leiki.

Frekari upplýsingar


Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir

470 3871 // [email protected]