Geðræktarmiðstöð Austurlands verður formlega opnuð á Egilsstöðum í dag, 10. október, frá klukkan 15 til 16, og á Reyðarfirði þann 17. október frá kl. 12 til 14. Opnun miðstöðvarinnar markar tímamót í þjónustu við fólk í landshlutanum sem glímir við andleg veikindi, einmanaleika eða félagslega einangrun – og er liður í því að styrkja geðrækt og vellíðan íbúa á svæðinu.
Miðstöðin starfar undir einkunnarorðunum vinátta – vöxtur – vellíðan og mun verða öruggt, opið rými fyrir einstaklinga sem glíma eða hafa glímt við andleg veikindi, einmanaleika eða félagslega einangrun. Hún er opin öllum 18 ára og eldri, án tilvísunar eða sjúkdómsgreiningar.
Markmið miðstöðvarinnar er að efla tengsl einstaklinga við samfélagið og styrkja upplifun þeirra af því að vera hluti af heild. Í boði verður fjölbreytt dagskrá sem mótuð verður í samstarfi við notendur.
Verkefnið er styrkt af Alcoa Foundation og er samstarfsverkefni Austurbrúar, Starfsendurhæfingar Austurlands (StarfA), Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA), Múlaþings og Fjarðabyggðar.
Staðsetning og opnunartímar verða sem hér segir:
Egilsstaðir: Í húsnæði StarfA eftir hádegi, opið á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 13–16.
Einnig verður listasmiðja í Fjárhúsunum í Fellabæ á mánudögum kl. 13–16.
Reyðarfjörður: Í félagsheimili eldri borgara að Melgerði 13 (á eftir að festa daga).
Í geðræktarmiðstöðvunum munu starfa notendafulltrúar sem hafa fasta viðveru og veita notendum stuðning. Hlutverk þeirra er að veita hjálp út frá eigin reynslu af bata, hlusta, sýna samkennd og miðla von. Þeir verða jafnframt tengiliðir milli notenda og stjórnenda verkefnisins, halda utan um hópastarf og aðstoða við listasmiðjur, námskeið og fræðslu. Fram að áramótum verða tveir notendafulltrúar á Egilsstöðum og tveir á Reyðarfirði.
Linda E. Pehrsson, forstöðumaður StarfA, segir opnun miðstöðvarinnar marka tímamót í þjónustu við fólk sem glímir við andleg veikindi:
„Í geðræktarmiðstöðinni mun fara fram valdeflandi starfsemi, notendafulltrúar og þátttakendur munu vinna saman að því að skapa umhverfi til að gleyma sér í skapandi iðju, efla heilsu, þátttöku og vellíðan í daglegu lífi, tilheyra hóp og vera í tengslum við annað fólk á jafningjagrundvelli.“
Sigurlín Hrund Kjartansdóttir, yfirsálfræðingur hjá HSA, segir miðstöðina fylla mikilvægt skarð í þjónustu á svæðinu:
„Ég tel geðræktarmiðstöðina geta útvegað það sem okkur vantar upp á í heilsugæsluþjónustunni. Viðtöl ein og sér eru oft ekki nóg og fólk þarf að hafa stað þar sem það getur verið í félagslegri virkni án fordóma.“
Anna Alexandersdóttir, félagsmálastjóri Múlaþings, segir:
„Það hefur vantað úrræði fyrir þennan hóp hér fyrir austan og því verður spennandi að sjá hvernig verkefninu framvindur.“
Laufey Þórðardóttir, sviðstjóri fjölskyldusviðs hjá Fjarðabyggð, segir opnun miðstöðvanna skref í átt að enn betra samfélagi á Austurlandi:
„Þetta er stórt skref í átt að samfélagi þar sem enginn stendur einn. Við viljum skapa öruggt og opið rými þar sem fólk getur tengst, blómstrað og fundið styrk í samveru.“
Austurbrú hefur stýrt skipulagsvinnunni við að koma Geðræktarmiðstöð Austurlands á laggirnar og sótti, ásamt samstarfsaðilum, um styrk frá Alcoa Foundation til að gera verkefnið að veruleika.
Erna Rakel Baldvinsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú, segir það mikilsvert að þessi þjónusta sé nú að verða að veruleika:
„Þetta verða vonandi tímamót fyrir geðheilbrigðismál á Austurlandi. Við hjá Austurbrú erum þakklát fyrir traustið sem Alcoa Fjarðaál og Alcoa Foundation hafa sýnt okkur með þessum styrk, og hlökkum til að sjá hvernig miðstöðin mun vaxa og dafna með þátttöku fólksins sjálfs.“
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn