Starfsfólk Austurbrúar fór í fræðslu- og kynnisferð til Orvieto á Ítalíu síðustu vikuna í maí. Um var að ræða tveggja daga fræðslu þar sem starfsfólkið fékk kynningu á Cittaslow hreyfingunni og starfsemi samtakanna. Aðalstöðvar þeirra eru staðsettar í Orvieto á Ítalíu og kynntu starfsmenn Austurbrúar sér samtökin og mátuðu áherslur þeirra við nýtt Svæðisskipulag Austurlands, Áfangastaðaáætlun Austurlands og fræðsluáætlun Austurbrúar. Auk þess fengu starfsmenn kynningu á ýmis konar starfsemi í Orvieto sem tekur mið af markmiðum Cittaslow.
Ferðin hófst á heimsókn í höfuðstöðvar Cittaslow þar sem Pier Giorgio Oliveti, framkvæmdastjóri alheimssamtaka Cittaslow, kynnti samtökin, áherslur, verkefni, markmið, tækifæri og áskoranir. Jóna Árný Þórðardóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri Austurbrúar, kynnti Austurbrú og starfsemi hennar. Þaðan var haldið til bæjarstýrunnar í Orvieto, Robertu Tardani, sem fór yfir það hvernig samfélagið í Orvieto vinnur eftir markmiðum Cittaslow, hvaða þýðingu það hefur fyrir samfélagið að hafa slíkt tæki til að aðstoða við að varðveita sérkenni þess og hlúa að menningu, sögu, framförum o.fl.
Starfsfólkið heimsótti veitingastaðinn Charlie þar sem kjötiðnaðarmeistarinn Giuseppe Santi sem fjallaði um mikilvægi staðbundins hráefnis og kenndi starfsmönnum Austurbrúar m.a. að baka „sniglabrauð“ sem hefur verið notað um aldir til að nýta afganga og í nesti fyrir ferðalanga. Deginum lauk með leiðsögn frá menntskælingum þar sem farið var um miðaldahverfi Orvieto, sagan sögð, merkilegir staðir heimsóttir, farið í vínsmökkun, þar sem unnið er eftir aldagömlum hefðum og að lokum heimsókn í dómkirkjuna í Orvieto þar sem unga fólkið lýsti sérstaklega freskum Luca Signorelli en í ár eru einmitt 500 ár síðan hann lést.
Annan dag heimsóknarinnar skoðaði hópurinn samvinnurými þar sem unnið er eftir hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins; afgangar af efni, fatnaði o.fl. eru nýttir til að búa til ýmis konar flíkur, auk þess sem fatnaður er endurseldur. Í samvinnurýminu vinna saman fatlaðir einstaklingar, fangar og konur sem hafa orðið fyrir heimilisofbeldi.
Þaðan var haldið í samfélagsmiðstöð þar sem unnið er að þróun nærsamfélagsins í Orvieto. Rætt var um reynsluna af samvinnufélaginu, félagslegri aðlögun og frætt um efnagsmódelið sem unnið er eftir.
Að lokum heimsótti hópurinn vinnustofu leirlistakonunnar Rosaria Vagnarelli en þar var fræðsla um starfsemi listafólks í Orvieto auk þess sem starfsmenn Austurbrúar spreyttu sig á því að búa til leirlistaverk.
Um helgina naut hópurinn lífsins í Orvieto. Á laugardeginum var farið í gönguferð í bæinn Canonica eftir göngustígum sem heimamenn leggja mikla rækt við að viðhalda og sinna. Á hverju ári þarf að klippa tré, hreinsa stígana og laga þá til þannig að öruggt sé að ganga eftir þeim. Í Orvieto eru um 30 sjálfboðaliðar sem sjá um viðhald fjölmargra stíga og var mjög áhugavert að ganga með heimafólki þessa leið.
Á hvítasunnudegi er haldin mikilvæg hátíð í Orvieto. Bæjarbúar ganga um þröngar göturnar í búningum og tónlistaratriði eru víða. Á hádegi er mikivæg trúarhátíð við dómkirkjuna þar sem dúfa ferðast eftir stálvír yfir kirkjutorgið og endar ferðalagið við veggi kirkjunnar. Þannig er heilagur andi fluttur inní kirkjuna. Mjög gaman var að fylgjast með athöfninni og eftirvænting íbúanna var áþreifanleg á meðan beðið var eftir dúfunni. Fagnaðarlætin voru mikil að athöfn lokinni.
Ferðinni lauk í Róm þar sem ein merkilegust mannvirki sögunnar voru skoðuð.
Markmið Cittaslow hreyfingarinnar eru að auka lífsgæði og ánægju fólks með því að veita hnattvæðingu, einsleitni og hraðaáráttu í borgum og bæjum nútímans viðnám og heiðra þess í stað sérstöðu, vitund og sjálfbærni. Cittaslow samtökin leggja áherslu á verndun náttúru og menningarminja, fegrun umhverfis, umhverfisgæði, notkun á nýjustu tækni í þágu samfélagsins, eflingu staðbundinnar matarmenningar og framleiðslu, öryggi og aðgengi auk gestrisni, kurteisi og vinsamlegs viðmóts.
Síðastliðin ár hefur Austurbrú, í góðu samstarfi við sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki og íbúa á Austurlandi lagt mikla áherslu á að gera Austurland að góðum stað til að búa á og heimsækja. Nýtt svæðisskipulag fyrir fjórðunginn gildir frá 2022-2044. Á Austurlandi er nú eina starfandi Cittaslow þorp á Íslandi, en Djúpavogshreppur (sem nú er sameinaður Múlaþingi), varð aðili að samtökunum 2013. Mikill áhugi er á Austurlandi að skoða möguleika þess að fleiri byggðarkjarnar og/eða svæðið í heild sæki um að verða meðlimir í samtökunum.
Starfsfólk Austurbrúar sækir styrki í sína fræðslusjóði til að fjármagna fræðsluferðina.
Myndir: Jón Knútur Ásmundsson, Esther Ösp Gunnarsdóttir, Ásdís Helga Bjarnadóttir, Arnar Úlfarsson og Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir.
Ferðasaga: Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn