Dagana 23.-24. september stóð Nýheimar þekkingarsetur fyrir málþingi á Höfn í Hornafirði undir yfirskriftinni Hvað ef ég vil vera hér. Málþingið fjallaði um ungt fólk, byggðafestu þess og framtíð á landsbyggðinni. Sjö fulltrúar frá Austurbrú mættu á málþingið enda mikilvægt að afla sér þekkingar og reynslu frá öðrum sveitarfélögum sem vinna að sambærilegum áskorunum.
Meðal frummælenda voru Dr. Eva Mærsk frá Danmörku og Dr. Lotta Svensson frá Svíþjóð sem báðar hafa áralanga reynslu af rannsóknum á stöðu og viðhorfum ungs fólks á landsbyggðinni. Lotta fjallaði um hvaða stuðning og valkosti þurfi til að ungt fólk sjái sér framtíð utan þéttbýlis, á meðan Eva beindi sjónum á það hvernig skapa megi rými fyrir ungt fólk í þróun byggða.
Frá Noregi kom Tonje Bjerken, framkvæmdarstjóri Nordfjordkompaniet, sem kynnti nýstárlegar leiðir til að tengja saman ungmenni, fyrirtæki og sveitarfélög.
Gréta Bergrún Jóhannesdóttir frá Langanesi flutti erindi um áhrif bæjarbrags og orðræðu í samfélögum, og vakti athygli á mikilvægi þess hvernig íbúar tala um heimabyggð sína. Hún benti á að jákvæð orðræða geti jafnvel verið lykill að því að halda betur í núverandi íbúa.
Frá heimahögunum kynntu Hugrún Harpa Reynisdóttir og Eyrún Fríða Árnadóttir verkefnið HeimaHöfn, samstarfsverkefni Nýheima og Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Verkefnið miðar að því að styrkja aðdráttarafl sveitarfélagsins sem framtíðarheimili fyrir ungt fólk. Sérstaklega var rætt um hvernig samfélagið sjálft hafi tekið verkefninu opnum örmum – meðal annars með virkum samtölum við ungmenni og stuðningi bæjarstjórnar sem hefur sýnt vilja til að leggja fjármuni í frekari þróun.
Það sem stóð upp úr umræðum var hversu mikilvægur þáttur orðræða og sjálfsmynd samfélaga er þegar kemur að því að skapa framtíðarbyggðir. Í stað þess að einblína á að laða alltaf að nýja íbúa var lögð áhersla á að efla tengsl þeirra sem fyrir eru, styrkja staðarstoltið og þannig minnka brottflutning.
Smelltu hér og segðu okkur, hvað fær þig til að vilja búa á Austurlandi ?
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn