Hvernig upplýsum við íbúa á náttúruvársvæðum og hvernig tökum við faglegar ákvarðanir varðandi náttúruvá? Austurbrú tekur þátt í tveimur Evrópuverkefnum sem eru styrkt af Horizon2020 sem er stærsti rannsóknar-, þróunar- og verkefnasjóður innan Evrópuverkefna.
Annað verkefnið kallast The HuT: The Human-Tech Nexus þar sem Austurbrú vinnur í samstarfi við Veðurstofu Íslands og Almannavarnir. Hlutverk Austurbrúar er að vera tengiliður Veðurstofunnar og Almannavarna við íbúa á áhættusvæðum ofanflóða.
Megin afurð verkefnisins er að gera upplýsingagátt með vefsíðu þar sem almenningur getur leitað eftir upplýsingum, t.d. um hættur á ofanflóðum, fræðsluefni fyrir börn og upplýsingum um mælitækin sem eru notuð á svæðinu. Áhersla verður lögð á samfélagið á Seyðisfirði en er það fyrsta tilraunasvæðið á Íslandi. Önnur tilraunasvæði eru til dæmis á Ítalíu, Austurríki, Þýskalandi og á Spáni. Í framhaldinu eru áformað að Eskifjörður og Neskaupstaður verði tilraunasvæði. Verkefnið hefur verið kynnt fyrir stjórnsýslu og sveitarstjórnarfulltrúum Múlaþings.
Hitt verkefnið kallast The MEDiate. Tilgangur þess er að þróa kerfi sem styður við ákvarðanatöku í áhættustjórnun og tekur tillit til fjölþættra náttúruváratburða sem eru á einhvern hátt samhangandi. Einnig snýr það að miðlun upplýsinga. Verkefnið verður unnið í samstarfi Austurbrúar, Háskóla Íslands og Veðurstofu Íslands. Tilraunasvæðið á Íslandi fyrir það verkefni verður einnig Seyðisfjörður en erlendis eru tilraunasvæðin á Englandi, í Frakklandi og Noregi.
Eins og öllum ætti að vera ljóst eru loftslagsbreytingar raunveruleg ógn fyrir mannkynið og því vert að stuðla að áframhaldandi vinnu, ekki aðeins sem snýst um að sporna gegn loftslagsbreytingum, heldur einnig að upplýsingar rati á rétta staði og til viðeigandi aðila. Ef einstaklingar búa við loftslagshættu er mikilvægt að þar sé til vettvangur sem veitir faglegar og öruggar upplýsingar, auk þess sem að yfirvöld þurfa að hafa ákveðið ferli til að taka ákvarðanir um rýmingar og því um líkt.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn