Næstkomandi föstudagskvöld, kl. 20:00, geta sundlaugargestir á Eskifirði, Neskaupstað, Egilsstöðum, Seyðisfirði og Selárlaug notið sinfóníutónleika í beinni útsendingu þegar „Klassíkinni okkar“ verður útvarpað á bökkum fjölmargra sundlauga landsins.
Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur upp á 75 ára afmæli sitt á árinu og jafnframt er þetta í 10. sinn sem „Klassíkin okkar“ fer fram í Eldborg Hörpu í samvinnu við RÚV. Af því tilefni var leitað samstarfs við sundlaugar um land allt svo hægt væri að upplifa tónleikana á nýjan hátt.
Að þessu sinni bera tónleikarnir yfirskriftina „Söngur lífsins“ þar sem margir af fremstu söngvurum þjóðarinnar flytja tónlist sem tengist hinum ýmsu augnablikum lífsins – frá tregafullum kvöldsöngvum til glaðværra gamansöngva. Meðal flytjenda eru Dísella Lárusdóttir, Eggert Reginn Kjartansson, GDRN, Ólafur Kjartan Sigurðarson, Pálmi Gunnarsson, Rebekka Blöndal og Valdimar Guðmundsson, auk Söngsveitarinnar Fílharmóníu. Bjarni Frímann Bjarnason stjórnar hljómsveitinni og kynnar verða Halla Oddný Magnúsdóttir og Guðni Tómasson.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn