Markið

  • Austurland verður áfram sem ævintýri líkast. Blómlegt menningarlíf og góðar aðstæður fyrir fjölbreyttar íþróttir og margskonar úti­vist gerir landshlutann að spennandi stað til að búa á, starfa og heimsækja.​
  • Viðfangsefni markmiðanna snúa að því að Austurland sé:​
    • Samfélag þar sem gestir eru vel­komnir og geta skyggnst inn í og verið þátttakendur í daglegu lífi íbúa.​
    • Samfélag sem einkennist af öflugu lista- og menningarlífi.​
    • Svæði þar sem eru framúrskarandi aðstæður til að njóta margskonar úti­vistar og fyrirmyndaraðstaða fyrir allskonar íþróttir.

Dæmi um stefnumál

  • Aðalgötur og miðbæir eflist sem þjónustu- og menningarmiðstöðvar með aðlaðandi, heilsu­eflandi og lifandi miðbæjarumhverfi.​ Hönnun almenningsrýma taki mið af mismunandi ferðamátum, aðgengi fyrir alla og öryggi gang­andi og hjólandi vegfarenda.​
  • Stuðlað verði að því að uppbygging í afþreyingu og ferðaþjónustu dreifist sem mest um landshlutann til að koma í veg fyrir ofálag á tiltekna staði og stuðla að því að allt svæðið njóti aukinnar þjónustu.​
  • Lögð verði áhersla á að skapa möguleika fyrir íbúa og gesti til að njóta og taka þátt í hvers konar menn­ingarstarfsemi. Sérstaklega verði ungt fólk og íbúar af erlendum uppruna hvattir til þátttöku og að miðla sinnimenningu​.
  • Lögð verði áhersla á að hátíðir og viðburðir fari fram sem víðast um landshlutann og að með þeim verði m.a. hlúð að menningu, sögu og sérstöðu hvers samfélagskjarna. ​
  • Unnið verði út frá því að kostn­aðarsöm uppbygging sértækrar keppnis- og æfinga­aðstöðu geti nýst íbúum alls svæðisins.

Staða

  • Fjöldi þeirra sem sækja Austurland heim hefur vaxið mjög en hefur ekki dreifst um svæðið sem skyldi. Það getur valdið álagi á helstu áfangastöðum sem eykur hættu á raski og skemmdum auk þess sem það skapar hættu og núning. Á sama tíma reynist ferðaþjónustuaðilum erfitt að byggja upp þjónustu þar sem hún er of árstíða­bundin.​
  • Stefnan í áfangastaðaáætlun Austurlands er að dreifa ferðafólki, m.a. með því að laða það að allt árið um kring en til þess þarf að bæta samgöngur yfir vetur­inn og styrkja vetrar­þjónustu.​
  • Fjöldi menningarviðburða, smárra sem stórra ein­kennir menningarlíf á Austurlandi, s.s. nokkrar af þekktustu tónlistarhátíðum landsins, öflug barna­menningarhátíð, þekktar og verðlaunaðar listahátíðir, auk fjölda minni viðburða og sýninga. ​
  • Á Austurlandi eru þrjár menningarmið­stöðvar sem sinna sviðlistum, myndlist og tónlist. Markvisst hefur verið unnið að því að efla skapandi greinar og eru vaxtartækifæri með listnámsbraut ME, LungA-
    skólanum, og Skapandi sjálfbærni í Hallormsstaða­skóla.​
  • Menningarstefna er í vinnslu fyrir Austurland, stærri tvö sveitarfélögin hafa unnið slíka stefnu. ​
  • Góð almenn aðstaða er til íþróttaiðkunar en skortur á sérhæfðari aðstöðu sem nýta mætti fyrir allan fjórðunginn. Þátttaka barna og ungmenna er góð.
  • Fjölbreytt söfn, safnvísar og setur þar sem menningar­arfur á sviði sögu, náttúru og menningar er varðveittur og honum miðlað á margvíslegan hátt. Einnig almenningsbókasöfn og skjalasöfn þar sem skjöl og ljósmyndir sem varða Austurland eru varð­veitt og gerð aðgengileg.
  • Grasrótarstarfsemi á sviði menningar er víða öflug
    og þátttaka almennings í henni góð.