Íbúar Austurlands

Árið 2024 voru íbúar Austurlands 11.085, eða um 3% landsmanna, og hafði fjölgað um 422 á þeim 5 árum sem liðin eru frá gerð þeirrar sóknaráætlunar sem nú er að ljúka. Hlutfall ákveðinna aldurshópa er að breytast; börnum og ungmennum fækkar en eldri borgurum fjölgar. Fjölgun er í hópi yngra vinnandi fólks, 30-49 ára, fyrst og fremst íbúar af erlendum uppruna en þeim hefur fjölgað mikið undanfarin 20 ár og eru nú um 12% af íbúum Austurlands, langflestir á vinnualdri. Einnig er eitthvað um að ungir Austfirðingar skili sér heim eftir námsdvöl.

Sú fjölgun sem átt hefur sér stað hefur einkum verið í stærstu byggðakjörnunum en minnstu byggðirnar standa margar í stað eftir mikla fækkun áratugina á undan.

Tekjur eru að meðaltali yfir meðallagi á Austurlandi og þar eru tekjur karla með þeim hæstu á landinu en konur á Austurlandi hafa einna lægstar meðaltekjur kvenna á Íslandi. Þær eru jafnframt færri en karlar, einkum á aldrinum 30-50 ára.

Mannfjöldaaukning á Austurlandi er að mestu borin uppi af fólki af erlendum uppruna og nú eru um 17% íbúa með erlent ríkisfang en 2020 var hlutfallið um 11%. Ef gerð er einföld mannfjöldaspá sem einungis byggir á þróun undanfarinna 20 ára mun Austfirðingum fjölga mjög hægt og eftir 20 ár verða þeir 2.500-3.500 fleiri en í dag.

Aldurssamsetning íbúa Austurlands hefur breyst á undanförnum 20 árum og ef óbreytt þróun á sér sér stað mun verða áframhaldandi fækkun barna og ungmenna, fækkun í hópi 30-49 ára sem telja má einna virkastan hóp fólks á vinnumarkaði en fjölga mikið í hópi eldri íbúa sér í lagi 65-79 ára.

Breytingar á íbúasamsetningu út frá aldri gefa vísbendingar um hvert samfélagið stefnir til lengri tíma og hvernig þarfir íbúa fyrir ýmiskonar grunnþjónustu breytast. Því er mikilvægt að horfa til þeirra þegar línur eru lagðar um framtíðarsýn svæðisins til lengri tíma, eins og í Svæðisskipulagi landshlutans 2022-2044, sem og skemmri, eins og Sóknaráætlun 2025-2029 gerir.

Mannfjöldaspá fyrir Austurland

Mannfjöldaspá um þróun íbúa á Austurlandi til ársins 2044, byggð á þróun á árunum 2004-20024.