Dagana 23.–25. ágúst fór fram staðfundur og vinnustofa í verkefninu Boosting Continuity and Digitalisation of Rural Businesses (BOCOD) sem Austurbrú er þátttakandi í. Fundurinn var haldinn í Oulu í Finnlandi.
Verkefnið er þriggja ára og styrkt af Interreg Northern Periphery and Arctic (NPA) áætluninni. Markmið þess er að efla nýsköpun, stafræna hæfni og rekstrarhæfni fyrirtækja í dreifðum byggðum, auk þess að styðja við eigendaskipti fyrirtækja með markvissum hætti.
Auk Austurbrúar taka þátt í verkefninu Hincks Centre for Entrepreneurship Excellence við Munster Technological University á Írlandi, Lapland University of Applied Sciences, Business Joensuu Ltd, University of Oulu og Vestfjarðarstofa. Meðal samstarfsaðila eru einnig Galway Rural Development á Írlandi og Federation of Finnish Enterprises í Norður-Österbotten í Finnlandi.
Í tengslum við fundinn heimsótti hópurinn Liminka, sveitarfélag um 25 km sunnan Oulu með rúmlega 10 þúsund íbúa. Liminka er þekkt sem yngsta sveitarfélag Finnlands, þar ríkir mikill kraftur í atvinnulífi og yfir 800 fyrirtæki starfa á svæðinu. Sveitarfélagið hefur lagt ríka áherslu á stuðning við frumkvöðla og atvinnuþróun, meðal annars með samvinnuhúsnæði þar sem frumkvöðlar, ráðgjafar og stjórnsýsla starfa undir sama þaki.
Gestir fengu kynningu á styrkleikum sveitarfélagsins, m.a. nálægð við helstu samgönguæð Finnlands og auðugt náttúruumhverfi sem nýtist bæði til útivistar og uppbyggingar ferðaþjónustu. Einnig var farið í heimsóknir á Ruutikangas Shooting Center Finland, stærsta skotæfingasvæði Evrópu sem nú er í uppbyggingu, og í Liminka Bay Visitor Center, náttúrustofu og fuglaskoðunarstöð í stærsta votlendi Finnlands þar sem unnið er að þróun náttúrutengdrar ferðaþjónustu.
Næsti staðfundur verkefnisins verður á Íslandi á næsta ári.
Sjá fyrri fréttPáll Baldursson
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn