Háskólinn á Akureyri og Háskólinn í Reykjavík bjóða upp á BS-nám í tölvunarfræði á Austurlandi frá og með næsta hausti. Um er að ræða sveigjanlegt nám sem hentar vel fyrir fjarnema og fólk sem ætlar að stunda hlutastarf með náminu. Fyrirlestrarnir eru teknir upp og settir á kennsluvef og þannig geta nemendur horft á fyrirlestrana þegar þeim hentar og eins oft og þeir þurfa. Nemendur mæta svo í verkefnatíma á Reyðarfjörð þar sem verkefnastjóri aðstoðar þá.
En hvað gera tölvunarfræðingar? Við ræddum við Garðar Val Hallfreðsson hjá Austurneti á Egilsstöðum og kynntum okkur málið.
Starf tölvunarfræðinga er lifandi, skemmtilegt og fjölbreytt. Finna má tölvunarfræðinga víða í atvinnulífinu og hægt að fullyrða að þörfin fyrir þekkingu og kunnáttu þeirra muni ekki minnka á næstu árum. Með öðrum orðum eru framtíðarmöguleikarnir margir og spennandi fyrir verðandi tölvunarfræðinga.
Til að kynnast starfi þeirra betur áttum við spjall við Garðar Val hjá Austurneti en hann útskrifaðist úr tölvunarfræði árið 2011 og var raunar farinn að starfa í faginu fyrir útskrift.
„Ég var á öðru ári tölvunarfræðinni þegar bankahrunið varð,“ rifjar hann upp, „og það var ekki óalgengt á þessum árum að fólk væri hreinlega að mæla göturnar í bænum. Atvinnuleysi hjá ungu fólki var talsvert og margir sáu þann kost vænstan að fara í meira nám. Ég var einn af þeim.“
Sem fyrr segir starfar Garðar hjá Austurneti í dag. Þetta er hugbúnaðafyrirtæki á Austurlandi, staðsett á Egilsstöðum, og þar starfa m.a. tölvunarfræðingar og aðrir hugbúnaðarsérfræðingar. Fyrirtækið þjónar alls konar fyrirtækjum, stórum sem smáum, en flest eiga þau sammerkt að vera með starfsemi á Austurlandi. Það er þó ekki algilt. Kúnnahópurinn nær vel út fyrir landshlutann og raunar hefur Austurnet þróað hugbúnaðarlausnir sem notaðar eru á alþjóðavettvangi.
„Ég held að starfsemi okkar sé mjög lituð af því umhverfi sem var hérna eftir bankahrunið,“ segir hann. „Við unnum mikið fyrir frumkvöðla á fyrstu árunum og erum enn í dag verkefnadrifið fyrirtæki. Við vinnum með mörgum fyrirtækjum sem hafa ólíkar þarfir og vinnan tekur mið af því. Við þurfum að vera sveigjanleg, fjölhæf og með kjark til að takast á við nýjar áskoranir sem fylgja starfsumhverfinu.“
Meðal verkefna eru þróun hugbúnaðarlausna fyrir þjónustuvefi, sölu- og gagnagrunnskerfi af ýmsu tagi og að sjálfsögðu heimasíðugerð fyrir fyrirtæki og stofnanir. „Þetta eru mjög fjölbreytt verkefni og viðskiptavinirnir kröfuharðir eins og vera ber,“ segir Garðar.
En hvaða kröfur eru gerðar til tölvunarfræðinga? Hvað einkennir þá sem „fíla sig“ í þessari grein?
Garðar er fljótur að svara: „Það er lykilatriði að geta unnið með öðru fólki. Í fyrsta lagi vinnum við mikið saman og í öðru lagi eigum við í miklum samskiptum við viðskiptavinina okkar. Þá er gott að hafa frumkvæði, sýna sjálfstæði í vinnubrögðum, vera frjór og lausnamiðaður í hugsun og síðast en ekki síst jákvæður! Tölvunarfræðingur í vondu skapi á að fara heim og hvíla sig!“
Hann segir að vinnuumhverfið sé sveigjanlegt í þeim skilningi að þessi störf séu í eðli sínu „staðsetningarlaus“, að það skipti í raun ekki máli hvar eða hvenær verkefnin séu unnin svo lengi sem vandað sé til verka og þeim skilað á réttum tíma. Því pressan getur verið mikil í vinnunni, verkefnin krefjandi og skilafrestirnir stífir. „Oftast get ég nú samt unnið frá átta til fimm,“ segir hann. „Þetta snýst gjarnan um tímastjórnun og hvernig þú hagar þinni vinnu. Ef þú ert vel skipulagður er alveg hægt að vinna hefðbundinn vinnudag. Ég hef allavega getað sinnt fjölskyldunni og áhugamálunum meðfram vinnu án erfiðleika.“
Garðar segir það afar ánægjulegt að tölvunarfræði verði í boði á Austurlandi í haust og hann hvetur fólk í námshugleiðingum að kynna sér námið. Framtíðarhorfurnar séu góðar, störfin spennandi, fjölbreytt og oft vel launuð.
Hann þekkir fjarnámið vel en þannig lauk hann sínu námi og það hafi raunar allir starfsmenn Austurnets gert. Hann segir að það sé hins vegar mikil og góð breyting að bjóða upp á verkefnatíma á Reyðarfirði. „Já, ég tel það hiklaust,“ segir hann. „Þetta er erfitt og krefjandi nám og það er gott að hitta kennarann reglulega og fá aðstoð. Þess utan er gott að kynnast öðrum nemendum sem eru að fást við sömu hluti og stækka tengslanetið. Það kemur sér vel að námi loknu.“
Við hvetjum alla sem eru í námshugleiðingum á Austurlandi að skoða tölvunarfræðinámið. Fyrir utan gagnsemi og mikilvægi þess er einfaldlega ódýrara og fyrirhafnarminna að læra í heimabyggð!
Umsóknarfrestur er til 5. júní.
Nánar um tölvunarfræði á AusturlandiFrá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn