Finnst ykkur framboð af námskeiðum vera gott?

„Já, það er nokkuð gott. Það sem mér finnst erfiðast er að þurfa alltaf að senda fólk til Reykjavíkur og ég er búinn að skammast mikið yfir því þegar námskeið byrja kl. 9 á morgnana. Þá þarf fólk að fara daginn áður og námskeiðin e.t.v. svo löng að fólk nær ekki síðasta flugi heim. Það eru dæmi um það hjá okkur að námskeiðin eru 400 til 500 þúsund krónum dýrari fyrir okkur en þau væru ef við værum fyrir norðan eða sunnan. Þetta er fljótt að telja þegar maður þarf að greiða flug, dagpeninga og hótel. Oft eru þetta líka námskeið sem hægt væri að kenna í gegnum vef.“

Hafið þið haldið ykkar eigin námskeið?

„Já, við höfum t.d. verið að halda námskeið í stjórnun, samskiptum og öryggismálum sem starfsmenn okkar kenna. Stundum er þetta vegna þess að þörfin er aðkallandi og auðvitað hluti af stefnu okkar að hafa þessa hluti í lagi. Við tókum t.d. törn í tengslum við #metoo-umræðuna og í tengslum við öryggismálin. Það er búið að taka þá ákvörðun að hafa þau mál í lagi og stundum koma atvik sem kalla á námskeið.“

Haldið þið svona námskeið milliliðalaust?

„Já og við þyrftum auðvitað að gera meira af þessu en þetta er ekki einfalt mál – margar starfsstöðvar og mikið púsluspil ef allir eiga að sitja námskeiðið.“

Í sumum atvinnugreinum virðist vera minni þörf á virkri símenntun. Þannig sagði viðmælandi úr verslun að jafnvel þótt kallað væri eftir námskeiðum þá væri mæting ekki góð þegar upp væri staðið. Annar viðmælandi úr heilbrigðisstétt sagði áhuga á símenntun tengjast menntunarstigi fólks þannig að vel menntað fólk, fagfólk, sæktist fremur eftir því að komast á endurmenntunarnámskeið og þá aðallega í gegnum endurmenntunarnámsleiðir háskólanna.