Almennt hvatt til endurmenntunar
Í viðtölunum var einnig spurt út í símenntunarstefnu stofnana og fyrirtækja. Viðmælandi hjá sjávarútvegsfyrirtæki sagðist hafa nýtt sér þjónustu Austurbrúar. Með henni var unnin stefna til þriggja ára þar sem boðið var upp á praktísk námskeið, s.s. íslenskukennslu fyrir útlendinga en hlutfall erlendra starfsmanna í fyrirtækinu er hátt. Þá var boðið upp skyndihjálpar- og samskiptanámskeið auk frístundanámskeiða sem skilja mátti viðmælandann sem svo að sett væru á laggirnar til að bæta starfsánægju, eða eins og hann sagði: „Það er mikilvægt að gera eitthvað skemmtilegt líka.“ Fólk sækir sér einnig endurmenntun að eigin frumkvæði hjá fyrirtækinu, t.d. lyftarapróf og önnur réttindi. Vel tekið í allt slíkt henti það fyrirtækinu og oft styrkja vinnustaðirnir fólk til símenntunar. Almennt má segja að fyrirtæki og stofnanir taki vel í óskir starfsmanna um símenntun þótt þau séu misjafnlega burðug til að veita aðstoð.
Erfitt að framfylgja stefnum
Viðmælandi annars sjávarútvegsfyrirtækis, sem einnig starfaði eftir fræðslustefnu, sagði eðli starfseminnar oft hindra framkvæmd fræðsluáætlunar:
„Þegar það er vertíð hefur enginn tíma og þegar það er ekki vertíð er alltaf góður slatti af fólki sem fer. Þegar mikið er að gera er erfitt að ná í fólk í einhverja fræðslu og það er ýmislegt sem flækist fyrir okkur. Það er ekki mikið um að fólk sé að sækja námskeið að eigin frumkvæði. Sumt þurfa menn, t.d. sjómenn, að taka bara til að halda réttindum, s.s. björgunarskólann og menn hafa verið að biðja um lyfjakistunámskeið og fleira. Ef menn sýna frumkvæði gef ég alltaf grænt ljós.“
Finnst ykkur framboð af námskeiðum vera gott?
„Já, það er nokkuð gott. Það sem mér finnst erfiðast er að þurfa alltaf að senda fólk til Reykjavíkur og ég er búinn að skammast mikið yfir því þegar námskeið byrja kl. 9 á morgnana. Þá þarf fólk að fara daginn áður og námskeiðin e.t.v. svo löng að fólk nær ekki síðasta flugi heim. Það eru dæmi um það hjá okkur að námskeiðin eru 400 til 500 þúsund krónum dýrari fyrir okkur en þau væru ef við værum fyrir norðan eða sunnan. Þetta er fljótt að telja þegar maður þarf að greiða flug, dagpeninga og hótel. Oft eru þetta líka námskeið sem hægt væri að kenna í gegnum vef.“
Hafið þið haldið ykkar eigin námskeið?
„Já, við höfum t.d. verið að halda námskeið í stjórnun, samskiptum og öryggismálum sem starfsmenn okkar kenna. Stundum er þetta vegna þess að þörfin er aðkallandi og auðvitað hluti af stefnu okkar að hafa þessa hluti í lagi. Við tókum t.d. törn í tengslum við #metoo-umræðuna og í tengslum við öryggismálin. Það er búið að taka þá ákvörðun að hafa þau mál í lagi og stundum koma atvik sem kalla á námskeið.“
Haldið þið svona námskeið milliliðalaust?
„Já og við þyrftum auðvitað að gera meira af þessu en þetta er ekki einfalt mál – margar starfsstöðvar og mikið púsluspil ef allir eiga að sitja námskeiðið.“
Þörfin mismikil
Í sumum tilvikum snýst þetta að takmörkuðu leyti um val því starfsmenn þurfa að taka námskeið til að halda ákveðnum réttindum, eins og kom fram hér að ofan í tengslum við sjómenn og björgunarskólann. Athyglisvert sjónarmið kom fram hjá viðmælanda úr ferðaþjónustu sem sagði símenntun vera „tvíeggjað sverð“:
„Það er mikið talað um hversu mikilvægt er að starfsfólk mennti sig og auðvitað er ég sammála því í prinsippinu en það getur mögulega þýtt meiriháttar vesen í fyrirtæki eins og okkar, þar sem fólk getur menntað sig frá okkur. Það er kannski minna mál fyrir sunnan þar sem vinnumarkaðurinn er stærri og auðveldara að fá hæft fólk. Það getur hins vegar verið mjög erfitt hér.“
Í sumum atvinnugreinum virðist vera minni þörf á virkri símenntun. Þannig sagði viðmælandi úr verslun að jafnvel þótt kallað væri eftir námskeiðum þá væri mæting ekki góð þegar upp væri staðið. Annar viðmælandi úr heilbrigðisstétt sagði áhuga á símenntun tengjast menntunarstigi fólks þannig að vel menntað fólk, fagfólk, sæktist fremur eftir því að komast á endurmenntunarnámskeið og þá aðallega í gegnum endurmenntunarnámsleiðir háskólanna.