Samstarf og sameining
Á árunum 2020 og 2021 framkvæmdi Austurbrú fýsileikakönnun um aukið samstarf eða sameiningu safna á Austurlandi. Verkefni þetta var liður í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018 til 2024 (liður C.14 – Samstarf safna – ábyrgðarsöfn) sem samþykkt var á Alþingi þann 11. júní 2018. Samband sveitarfélaga á Austurlandi fól Austurbrú að hafa yfirumsjón með verkefninu en árangur þess verður að lokum mældur í fjölda safna sem hefja samstarf eða sameinast.
Víðtæk gagnaöflun
Við framkvæmd verkefnisins var stuðst við eigindlega rannsóknaraðferð. Tekin voru opin viðtöl við forsvarsmenn fjögurra viðurkenndra safna á Austurlandi og ellefu óviðurkenndra safna. Þá var rætt við við stjórnarformenn þriggja safna og sveitarstjórnarfólk í Fjarðabyggð og Múlaþingi. Einnig voru tekin viðtöl við framkvæmdastjóra safnaráðs og forstöðumenn tveggja höfuðsafna, Náttúruminjasafns Íslands og Listasafns Íslands. Þá voru fengnar upplýsingar fengnar af heimasíðum safnanna, úr ársreikningaskrám og annars staðar á veraldarvef en með skýrslunni fylgir ítarleg heimildaskrá.
Hagur af samstarfi
Ein megin niðurstaða könnunarinnar er sú að forsvarsmenn safna og sveitarstjórnarfólk telja mikinn hag í því, einkum í rekstrartilliti, að auka samstarf á milli safna en skiptar skoðanir voru um ágæti eða kosti þess að sameina söfn. Í skýrslunni segir m.a.: Austfirsk söfn, setur og sýningar eru fjölmörg og fjölbreytt. Í þeim liggja mikil tækifæri varðandi varðveislu og tengingu við samfélagið fyrr og nú, ferða–þjónustu, fræðslustarf og aðrar skapandi greinar. Flestar, ef ekki allar rekstrareiningarnar, líða þó fyrir fjárskort og of fátt starfsfólk, þannig að þær ná ekki því flugi sem þær gætu.
Skýrslan er aðgengileg hér að neðan.
Lesa skýrslu