Þann 5. júní fer fram Umhverfisráðstefna Austurlands í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Ráðstefnan er samstarfsverkefni Austurbrúar, Eflu og Eyglóar og dregur saman leiðandi sérfræðinga á sviði skipulags, mannvirkjagerðar og sjálfbærrar auðlindanýtingar. Hún ber heitið Hvernig byggjum við 2050? og er öllum opin – en skráning er nauðsynleg.
Markmið ráðstefnunnar er að beina sjónum að sjálfbærri framtíð í skipulagi, byggingariðnaði og nýtingu íslenskra hráefna með Austurland í forgrunni. Þarna gefst einstakt tækifæri til að hlýða á frumkvöðla og sérfræðinga sem eru að móta nýja hugsun í umhverfismálum, vistvænni hönnun og notkun endurnýjanlegra efna.
Á meðal fyrirlesara eru Jóhanna Helgadóttir, arkitekt hjá Nordic Office of Architecture, sem fjallar um náttúrumiðað skipulag í Blikastaðalandi, og Alexandra Kjeld, umhverfisverkfræðingur, sem ræðir um skyldubundna kolefnissporsútreikninga sem taka gildi frá september 2025. Gunnlaugur Guðjónsson frá Landi og skógi kynnir stöðu íslenskrar timburframleiðslu og Sunna Ólafsdóttir Wallevik hjá Gerosion fjallar um þróun sementslausna og hringrásarlausna í steinsteypu. Þá stígur á svið Arnhildur Pálmadóttir, handhafi umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs, með fyrirlestrinum Endurnýting byggingarefna.
Dagskráin spannar frá kl. 9:30–16:00 og lýkur með heimsókn í Vallanes. Helga Bjarnadóttir, sviðsstjóri hjá Eflu verkfræðistofu, stýrir ráðstefnunni.
Umhverfisráðstefnan fellur vel að markmiðum svæðisskipulags Austurlands og Sóknaráætlunar 2025–2029, sem leggja áherslu á sjálfbæra þróun, vistvæna mannvirkjagerð og að móta aðlaðandi byggð í sátt við náttúru og samfélag. Í ljósi áskorana í loftslagsmálum og brýnna innviðaverkefna er mikilvægt að skapa vettvang fyrir samtal, hugmyndaskipti og nýja sýn á framtíð byggðar og náttúrunýtingar á Austurlandi.
Við hvetjum íbúa, sveitarstjórnarfólk, hönnuði, verktaka, námsmenn og alla áhugasama um sjálfbæra framtíð til að mæta og taka þátt.
Skráning og nánari upplýsingar má finna hér.
Páll Baldursson
Sara Elísabet Svansdóttir
Signý Ormarsdóttir
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn