Gera má ráð fyrir því að margt spennandi eigi eftir að gerast á Austurlandi á næsta ári ef marka má  fjölda umsókna í Uppbyggingarsjóð Austurlands fyrir árið 2021. Sem fyrr segir bárust 118 umsóknir. Skiptust þær svona eftir málaflokkum: 67 til menningarmála og 51 til atvinnuþróunar og nýsköpunar. Sótt var um rúmar 186 milljónir en heildarkostnaður verkefna er áætlaður 529 miljónir.

Auglýst var óvenju snemma í ár en í fyrra auglýsti sjóðurinn eftir umsóknum í desember. Austurbrú, sem annast umsýslu sjóðsins í umboði Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, hefur haft það að markmiði að auglýsa styrkina fyrr á árinu og þannig koma til móts austfirska frumkvöðla. Von okkar er sú að hægt verði að úthluta í byrjun næsta árs.

Signý Ormarsdóttir hefur lengst af haft umsjón með sjóðnum hjá Austurbrú. Hún segir að það sé augljóst að það sé mikil gróska á Austurlandi og framkvæmdahugur í íbúum landshlutans. „Nú býður það fagráðanna að fara yfir þessar umsóknir sem ég veit að er einstaklega skemmtileg en krefjandi vinna,“ segir hún en áherslur og hugmyndafræði Uppbyggingarsjóðs byggja á Sóknaráætlun Austurlands 2020–2024 og er sett fram fyrir málefnaflokkana þrjá sem áætlunin nær yfir; menningu, umhverfi og atvinnu. Litið er til áherslna áætlunarinnar við mat á umsóknum og því má reikna með að mörg áhugaverð þróunarverkefni á þessum sviðum líti dagsins ljós á næsta ári.

Uppbyggingarsjóður Austurlands er samkeppnissjóður og reynsla síðustu ára sýnir að umsóknirnar verða sífellt betri enda hefur Austurbrú lagt mikið á sig til að svo verði. Vinnustofur hafa verið haldnar á haustin og ráðgjafar Austurbrúar veita mörg einstaklingsviðtöl enda að mörgu að huga í umsóknargerðinni.

Nánari upplýsingar:


Tinna Kristbjörg Halldórsdóttir

857 0801 // [email protected]


Signý Ormarsdóttir

470 3811 // [email protected]