„Ég vinn hjá Matís í Neskaupstað sem sérhæfir sig í rannsóknum á matvælum. Annars vegar skoðum við hvernig hægt sé að búa til ný og holl matvæli úr lítið notuðu hráefni. Sem dæmi erum við að skoða hvernig hægt væri að nýta betur örþörunga og hvort hægt sé að framleiða prótein úr þeim sem við getum svo borðað. Eins skoðum við fiskinn sem við borðum ekki og nýtum þar af leiðandi ekki eins og við gætum.

Hins vegar rannsökum við öryggi þeirra matvæla sem framleidd eru á Íslandi í dag. Það gerum við t.d. með að skoða hvort einhverjar örverur leynist í matnum sem ekki eiga að vera þar og þá aðallega örverur á borð við listeríu, salmonellu eða E. coli.
Þannig að við sinnum svo sannarlega mikilvægu hlutverki þegar kemur að matvælaframleiðslu á Íslandi!“

Stefán Þór Eysteinsson er með doktorspróf í matvælafræði frá Háskóla Íslands. Hann hafði áður stundað nám í líftækni við Háskólann á Akureyri, klárað próf í líffræði í Bandaríkjunum og loks lá leiðin aftur heim til Íslands í matvælafræði.

„Þegar kemur að þeim áskorunum sem mannkynið stendur frammi fyrir, s.s. þörf á sjálfbærri og umhverfisvænni matvælaframleiðslu, er nálgun matvælafræðinnar raunhæf. Þegar ég hafði lokið meistaranámi í HÍ var ekki aftur snúið og ég skráði mig í doktorsnám í matvælafræði sem ég lauk árið 2020.“
Þessi glæsilegi námsferill hófst í Nesskóla í Neskaupstað og í Verkmenntaskóla Austurlands. „Ég fór á náttúrufræðibraut,“ segir Stefán. „Þó ég hafi ekki almennilega vitað hvað ég vildi verða þegar ég yrði stór vissi ég samt að það yrði að tengjast náttúruvísindum. Tíminn í VA var ógleymanlegur, bæði vegna þeirra frábæru kennara sem voru þar en líka vegna félagsskaparins.“

ER DRAUMASTARFIÐ Á AUSTURLANDI?

Matís er eitt þeirra fyrirtækja sem ætlar að taka þátt í Starfamessu Austurlands 2024 sem haldinn verður fimmtudaginn 19. september frá kl. 10-14 í íþróttahúsinu á Egilsstöðum. Markmiðið að kynna störf og starfsgreinar í heimabyggð fyrir ungu fólki í landshlutanum. Fyrirtækjum og stofnunum á Austurlandi býðst að setja upp sýningarbás þar sem starfsmenn geta kynnt fyrir nemendum þau störf sem unnin eru. Gestir Starfamessu Austurlands 2024 eru allir nemendur í 9. og 10. bekk grunnskóla ásamt fyrsta árs nemum framhaldsskólanna. Sýningin verður á skólatíma og við reiknum með um 400 nemendum frá skólum í Múlaþingi, Fjarðabyggð og Vopnafjarðarhreppi.

Við hvetjum atvinnurekendur að taka þátt í Starfamessu Austurlands 2024, leggja sitt af mörkum að kynna fyrir ungu fólki framtíðarstörf- og tækifæri á Austurlandi!

Nánari upplýsingar