Alls bárust 113 umsóknir upp á tæpar 234 milljónir; 47 umsóknir á sviði atvinnu og nýsköpunar, 61 á sviði menningar og 5 um stofnog rekstrarstyrki. Úthlutunarnefnd samþykkti styrkveitingar til 59 verkefna af þeim 113 sem sóttu um, eða 52%.

Heildarkostnaður verkefnanna sem sótt var um taldi 812,90 milljónir en til úthlutunar voru 56,50 milljónir. Tuttugu og sjö atvinnu- og nýsköpunarverkefni fengu samtals 25,28 milljónir, tuttugu og átta menningarverkefnin fengu alls 26,68 milljónir og fjórir stofn- og rekstrarstyrkir voru veittir að upphæð 5 milljónir samtals. Fjöldi umsókna var á pari við síðustu ár, en verkefnin umfangsmeiri og styrkbeiðnirnar hærri sem endurspeglar grósku og í atvinnu- og nýsköpun, sem og frjótt menningarstarf á Austurlandi.

Í ár lagði útlhlutunarnefnd sérstaka áherslu á að styrkja atvinnu- og nýsköpun ungs fólks (undir 35 ára) en það er hópur sem ekki hefur sótt í atvinnuhluta sjóðsins af miklu mæli. Talsvert fleiri umsóknir bárust frá þessum aldurshópi en áður og um 37% verkefna sem fengu samþykkta styrkveitingu falla undir þessa áherslu.

Úthlutanir Uppbyggingarsjóðs Austurlands í heild sinni má finna í bæklingnum hér að neðan.

Úthlutun Uppbyggingarsjóðs Austurlands (PDF)

Skilar sér þrefalt aftur inn í hagkerfið

Formaður úthlutunarnefndar sjóðsins benti, í sínu ávarpi, á hversu vel fjárframlög til menningar og skapandi greina skilar sér: „Í nýrri skýrslu menningar- og viðskiptaráðuneytisins kemur fram að beint framlag menningar og skapandi greina til verðmætasköpunar á Íslandi árið 2022 nam um 3,5% af landsframleiðslu, eða um 150 milljörðum. Í skýrslunni kemur einnig fram að opinber framlög, eða réttara sagt fjárfesting hins opinbera í menningu og skapandi greinum, skilar sér þrefalt aftur inn í hagkerfið. Mikilvægi þess að styðja við menningu og skapandi greinar á landsvísu er því ekki bara falið í andlegum auðæfum heldur einnig beinhörðum peningum.“

Öflugar matarhefðir á Austurlandi

Hlutverk sjóðsins hefur reynst mörgum verkefnum mjög mikilvægt eins og Dagmar Ýr Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, kom inn á sínu ávarpi: „Við höfum á síðustu árum fylgst með ótrúlega flottum verkefnum fæðast fyrir tilstilli sjóðsins, t.d. er komin á fót Sinfóníuhljómsveit á Austurlandi, ferðaþjónusta blómstar á Borgarfirði eystri, við sjáum fyrirtæki framleiða gosdrykki í Fljótsdal og annað framleiða vörur úr sauðamjólk, kaffibrennslu á Stöðvarfirði og heitsósu á Djúpavogi. Það er raunar eftirtektarvert hve mörg matartengd verkefni hafa fengið styrki úr sjóðnum en það helst í hendur við þær öflugu matarhefðir sem við höfum hér á Austurlandi.“

Verkefnin munu margfalda gildi sitt

Berglind Harpa Svavarsdóttir, formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, gerði að umtalsefni mikilvægi frumkvöðla fyrir Austurland: „Ég get fullyrt að það fjármagn sem veitt er úr sjóðnum hér í dag mun nýtast vel og verkefnin munu án efa margfalda gildi sitt sem mun endurspeglast í auknu vöruúrvali, lífsgæðum og sýnileika fjórðungsins út á við. Verkefnin ykkar sem fara nú af stað eru okkur því mjög mikilvæg og þakka ég ykkur innilega fyrir kraft ykkar og þá ákvörðun að stíga skrefið með ykkar hugsjón í forgrunni.“

 

Austurhljóð flutti tónlistaratriði. Úlfar Trausti, Sándor Kerekes og Mairi McCabe.

Myndir: Gunnar Gunnarsson, Austurfrétt