Skortur á heilbrigðisstarfsfólki hefur oft komið til umræðu á Austurlandi og er það þekkt vandamál að erfitt er að ráða lækna til starfa á landsbyggðinni. Viðmælandi í heilbrigðisgeiranum hafði þetta að segja:

„Það sem háir okkur mest er að það vantar fleiri sjúkraliða. Þá hefur verið og er hægt að mennta hér á svæðinu. Þetta er oft fólk sem byrjar sem sjúkraliðar en fer svo í framhaldinu í hjúkrunarnám. Svo vantar okkur líka hjúkrunarfræðinga en í minna mæli. Við gætum haft fleiri í vinnu, sérstaklega sjúkraliða. Þeir eiga auðvitað að vera í aðhlynningu en í staðinn erum við með ófaglært fólk í slíkum störfum. Ófaglært fólk er fyrst og fremst í þjónustudeildunum; ræstingu, eldhúsi. Þau störf eru mikið borin uppi af útlendingum og þá helst Pólverjum, t.d. í Neskaupstað, en þetta er svolítið mismunandi eftir svæðum.“

 

Þá var rætt við fulltrúa úr fræðslugeiranum. Það ætti ekki að koma á óvart að fræðslustjóri í stóru sveitarfélagi vakti máls á skorti á menntuðum leikskólakennurum en staðan á öðrum skólastigum væri mun betri. Viðmælandi frá menntaskóla sagði það einnig stöðuna á framhaldsskólastiginu, vel hefði gengið að fá hæft fólk til starfa.

Sömu sögu var að segja úr verslunargeiranum. Viðmælandi úr sérvöruverslun sagði erfitt að fá hæfa starfsmenn, þ.e. fólk sem hefði þekkingu á vörunum sem verslunin seldi sem í þessu tilviki eru raftæki ýmis konar: „Draumastarfsmaðurinn er helst menntaður, búinn að klára menntaskólanámið, kominn með grunn í samskiptum og tilfinningu fyrir lífinu. Það er nóg til að byggja frekari þekkingu á sem við getum gert sjálf.“

Þetta viðhorf kom einnig fram hjá öðrum viðmælanda, þ.e. að í verslun þyrfti oft þroskað og lífsreynt fólk sem gæti tekið sjálfstæðar ákvarðanir byggðar á eigin dómgreind. Þessi hugsun var orðuð svona af viðmælanda hjá flutningafyrirtæki:

„Bestu krakkarnir sem við getum fengið eru sveitakrakkar, krakkar sem hafa alist upp við tæki. Ég er t.d. að ráða ungar stelpur bara þegar ég skoða hvaðan þær koma, kannski ein úr Skagafirði og hin úr uppsveitum nálægt Selfossi. Þetta fólk er líklegt til að geta bjargað sér og ég býð því bara að koma.“