Ársfundur Austurbrúar 2021

Aðgengi landsbyggðanna að menntun er jafnréttismál

Menntamál voru fyrirferðarmikil í umræðum á ársfundi Austurbrúar sem haldin var í byrjun júní og skal engan undra því ýmislegt er í farvatninu í þeim efnum á Austurlandi.

Fram eftir vori var óljóst hvort fundurinn yrði haldinn í fjarfundi en sem betur fer tókst að halda fundinn með „eðlilegum“ hætti. Dagskráin var hefðbundin en þess má geta að Magnús Jónsson frá KPMG fór yfir ársreikninga Austurbrúar og þar kom fram að rekstrarniðurstaða var jákvæð um 23,6 milljónir króna og að eigið fé væri jákvætt um tæpar 67 milljón króna.

Ársreikningur 2020

Ársskýrsla 2020

Málefni háskólastarfs voru tekin til sérstakrar umræðu á fundinum. Gauti Jóhannesson, forseti bæjarstjórnar Múlaþings, sagði frá markmiðum sveitarfélagsins um framhaldsmenntun og möguleikum um samstarf við University of the Highlands and Islands í Skotlandi sem nú er í bígerð. Sæunn Stefánsdóttir kynnti starf Rannsóknarsetra HÍ en þau eru að verða tíu talsins, þar af tvö á Austurlandi – eitt á Héraði og annað á Breiðdalsvík – en fyrsta rannsóknasetrið var einmitt stofnað á Hornafirði árið 2009.

Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, sagði að staðbundið háskólanám, eins og væri í undirbúningi á Austurlandi, gríðarlega mikilvægt fyrir þróun samfélagsins. Háskólastofnanir væru hluti af því og mikilvægar þegar kæmi að atvinnuuppbyggingu og nýsköpun.

Undir þetta tók Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA, og minnti á að umræða um jafnrétti kynjanna gagnvart námi og menntun hefði opnað augu fólks fyrir aðgengi nemenda á landsbyggðinni að háskólanámi. Heimsfaraldurinn hefði opnað gríðarlega möguleika á ýmis konar námi og atvinnu og í máli hans kom m.a. fram að tveir þriðju nemenda HA stunduðu fjarnám af einhverju tagi.

Dagmar Ýr Stefánsdóttir, yfirmaður um samskipta- og samfélagsmála hjá Alcoa, lýsti fyrir hönd atvinnulífsins á Austurlandi yfir mikilli ánægju með samstarf sveitarfélaga, atvinnulífs og háskólanna við uppbyggingu háskólanáms á Austurlandi sem hæfist í haust.

Í beinu framhaldi af ársfundinum var skrifað undir samning um námsstyrki frá atvinnulífinu á Austurlandi.

Nánari upplýsingar