Guðmundur R. Gíslason

Guðmundur R. Gíslason

Handhafi menningarverðlauna
SSA árið 2021.

Haustfundur SSA fór fram við sérstakar aðstæður í dag en vegna ástandsins í samfélaginu fór hann fram í fjarfundi líkt og í fyrra. Að venju voru veitt menningarverðlaun SSA og hlaut þau að þessu sinni Guðmundur R. Gíslason, tónlistarmaður frá Neskaupstað.

 

Afkastagetan eykst með aldrinum

Guðmundur hefur komið víða við í menningarlífinu á Austurlandi og hefur verið virkur þátttakandi þess frá unglingsárum. Hann er fæddur árið 1970 í Neskaupstað og hefur verið búsettur þar stærstan hluta ævinnar. Í rökstuðningi kom m.a. fram:

Guðmundur er einn af farsælustu dægurtónlistarmönnum sem Austurland hefur alið af sér. Á síðustu árum hefur hann verið iðinn við útgáfu nýrrar tónlistar en eftir hann liggja þrjár sólóplötur: Íslensk tónlist (2007), Þúsund ár (2017), Sameinaðar sálir (2020) og upptökur á þeirri fjórðu eru þegar hafnar. Ferill Guðmundar spannar nærri fjóra áratugi en hann hófst um miðjan níunda áratug síðustu aldar þegar hann stofnaði og tók að sér forsöngvarahlutverk í hljómsveitinni Súellen. Hljómsveitin gaf út fjölda vinsælla laga sem sum hver hafa lifað með þjóðinni, þrjár breiðskífur og eina EP-plötu, auk sem sveitin var um tíma ein vinsælasta dansleikjahljómsveit landans. Þá hefur hann tekið að sér allskyns hlutverk í menningarlífi Norðfjarðar, rekið félagsheimili, sungið í kór, sett á laggirnar fjölbreytileg tónlistarverkefni og allir sem þekkja til vita að hann er kraftmikill liðsmaður hvar sem hann stígur fæti niður. Allt hans starf sýnir að honum er annt um samfélagið sitt og leggur mikið á sig til að gera veg þess sem mestan á menningarsviðinu. 

Landsbyggðin er Guðmundi hugleikinn enda er hann Austfirðingur af lífi og sál. Í textum sínum eru yrkisefnin oftar en ekki tengd hinum dreifðu byggðum með einhverjum hætti og líkt og hjá íslensku trúbadorunum, sem hann hlustaði á í æsku, s.s. Bjartmar Guðlaugsson og Bubbi Morthens, þá kemur líf alþýðufólks oft við sögu og hann er óhræddur að fjalla um erfið mál eins og lagið Perla, sem hann söng einmitt með fyrrnefndum Bubba, er til vitnis um en þar fjallaði hann um Alzheimer-sjúdóminn á einkar næman hátt og náði lagið töluverðum vinsældum. Guðmundur hefur líka fjallað um fíkniefnaneyslu, sjálfsvíg, snjóflóðin í Neskaupstað og fleira í textum sínum en eins og hann hefur sjálfur sagt í viðtölum þá skiptir það hann máli að syngja um lífsins alvöru. Og samhliða er Guðmundur líka frábær skemmtikraftur líkt og dansleikjagestir á Austurlandi vita. Guðmundur er vel að þessum verðlaunum komin núna enda hefur hann verið einstaklega virkur og afkastamikill, eins og fram hefur komið, allan sinn feril og afkastagetan, ef eitthvað er, fer stigvaxandi með aldrinum.

Djúpt snortinn

Guðmundur ávarpaði þingið með uppteknu ávarpi en hann segir einstaklega ánægjulegt að hljóta verðlaunin. „Ég er virkilega djúpt snortinn að fá þessa viðurkenningu,“ segir hann. „Hún er mér hvatning til að gera enn betur og halda áfram. Ég vil leyfa mér að deila þessum verðlaunum með konunni minni og  öllu því góða fólki sem ég hef unnið með í gegnum tíðina. Að skapa veitir mér innri ánægju og því mun ég halda áfram að skapa á meðan ég dreg andann og einhver er að hlusta.“

Haustþing SSA óskar Guðmundi R. Gíslasyni hjartanlega til hamingju með verðlaunin.

Ljósmynd: Hjalti Árna.