Sterk rödd landsbyggðarinnar

„Ég mun halda áfram að leggja mig alla fram til að landsbyggðin sitji við sama borð varðandi aðgang að þjónustu, námi, störfum og alhliða uppbyggingu sem er nauðsynleg á hverjum tíma,“ segir Berglind Harpa Svavarsdóttir, formaður SSA í viðtali.

Berglind er 46 ára, búsett á Egilsstöðum, fædd í Reykjavík en uppalin í Hveragerði. Hún er gift Berg Valdimari Sigurjónssyni, tannlækni frá Norðfirði og saman eiga þau þrjá drengi á aldrinum 16 til 23 ára.

Hún er menntaður hjúkrunarfræðingur og að auki hefur hún lokið meistaranámi í heilbrigðisvísindum með áherslu á stjórnun. Berglind vann frá 2003 sem hjúkrunarfræðingur hjá HSA en breytti til árið 2018 og varð þá bæði forstöðumaður í dagþjónustu eldri borgara á Egilsstöðum, sem hún sinnir enn í dag, auk þess að hefja þátttöku í stjórnmálum þannig að eftir var tekið:

„Ég settist í bæjarstjórn á Fljótsdalshéraði árið 2018 ásamt því að vera formaður fræðslunefndar,“ segir hún. „Við fórum svo í sameiningarviðræður og Múlaþing varð til í september 2020. Þá varð ég formaður byggðaráðs í Múlaþingi og formaður heimastjórnar á Seyðisfirði auk þess að sitja í sveitarstjórn.

Í ár voru aftur kosningar í Múlaþingi. Þá var ég í oddvitasæti og er áfram formaður byggðaráðs og sveitarstjórnarfulltrúi. Þessu til viðbótar bauð ég mig fram til alþingiskosninga 2021 og er í dag fyrsti varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og hef sest tvisvar á þing á þeim tíma. Fyrra skiptið var í febrúar fyrr á þessu ári og svo aftur núna í eina viku í lok september,“ segir Berglind en markmið hennar með stjórnmálaþátttöku eru skýr:

„Ég ætla mér að vera sterk rödd landsbyggðarinnar og mun halda áfram að leggja mig alla fram til að landsbyggðin sitji við sama borð varðandi aðgang að þjónustu, námi, störfum og alhliða uppbyggingu sem er nauðsynleg á hverjum tíma,“ segir hún.

Hver eru helstu verkefnin framundan?

„Á Austurlandi þarf að koma á öflugum samgöngubótum sem tengja alla byggðakjarna saman í einn hring. Austurland er eitt atvinnu- og þjónustusvæði með gríðarlega möguleika til vaxtar. En það veltur mikið á uppbyggingu samgangna, ljósleiðaravæðingu og aðgangi að nægri raforku. Þetta eru stærstu málin sem við verðum að herja á í sameiningu. Við verðum að hugsa stórt og þora að fara fram á öfluga alhliða uppbyggingu.

Þá eru samgöngur okkar í lofti einnig gríðarlega mikilvægar. Það er alltof mikil þjónusta sem íbúar Austurlands þurfa að sækja suður með tilheyrandi kostnaði. Mikið af þessari þjónustu gætum við eflt á Austurlandi en svo þarf aðgengi að höfuðborginni að vera tryggt með öruggum og hagkvæmum hætti. Í því samhengi má nefna úrræðið Loftbrú, sem var mikið framfaraspor, en hana þarf að móta frekar þannig að þjónustan verði ávallt í fyrirrúmi. Það er afleit staða að fólk fái hnút í magann þegar það hugsar til þess hvort það verði nú af fluginu, það verði seinkanir eða það fái niðurfelld flug endurgreidd.

Við verðum enn fremur að efla beint flug erlendis frá Egilsstaðaflugvelli og sú vegferð byrjar í vor með þýska flugfélaginu Condor. Þá munum við geta millilent í Frankfurt og flogið út í heim á þá áfangastaði sem heilla okkur. Þetta er gríðarlega spennandi tækifæri fyrir íbúa Austurlands.

Í þessu samhengi má einfaldlega segja að uppbygging á Egilsstaðaflugvelli er gríðarlega mikilvæg og í fyrstu flugstefnu Íslands er flugvöllurinn skilgreindur í forgangi í uppbyggingu varaflugvalla hér á landi. Jarðhræringar á Reykjanesskaga gera þessa uppbyggingu aðkallandi. Þá má heldur ekki horfa fram hjá öflugum útflutningsfyrirtækjum á Austurlandi sem hafa líka hagsmuna að gæta. Við erum með gríðarlega sterk sjávarútvegsfyrirtæki á Austurlandi og ótal tækifæri í útflutningi á fiskafurðum.“

Hjartað slær í heilbrigðismálunum

Hjartans mál Berglindar eru heilbrigðismálin og sem varaþingmaður hefur hún beitt sér í þeim málaflokki. „Við erum í lengstu flugleið frá Landspítalanum og verðum að hafa öfluga greiningu á heilbrigðisástandi í okkar nærumhverfi,“ segir hún. „Í bráðatilfellum þarf að vera hægt að greina með hraði og þá þarf öflugan tækjakost og tryggt sjúkraflug. Í því samhengi er mikilvægt að friður skapist um Reykjavíkurflugvöll þar sem hann er því aðrir valkostir virðast ekki vera augljósir, þarna að baki eru t.d. almannahagsmunir er varða aðgengi að heilbrigðisþjónustu í neyð. Þetta skiptir okkur gríðarlega miklu máli því við erum að standa vörð um líf og heilsu fólks á landsbyggðinni. Því hefur verið kastað fram að ég vinni gegn umdæmissjúkrahúsinu í Neskaupstað með þessum áherslum en það er algjör misskilningur. Ég vil einmitt efla sjúkrahúsið og að ríkið standi alfarið undir þeim nauðsynlega tækjakosti sem þarf til að hafa öflugt sjúkrahús á Austurlandi en ekki að reiða þurfi sig á fjársterk fyrirtæki, eins og hefur verið gert hingað til. En tækjakostur til bráðagreiningar þarf að vera til staðar víðar á landsbyggðinni til að bregðast við á sem skemmstum tíma.“