Matarauður Austurlands

Nýjustu upplýsingarnar hverju sinni

„Langtímamarkmiðin eru þau að vefurinn verði alltaf lifandi og uppfærður með nýjustu upplýsingum hverju sinni og að þarna inni verði hægt að finna alla á Austurlandi sem hafa aðkomu að mat og matarmenningu á svæðinu“ – Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir, verkefnastjóri.

Matarauður Austurlands

Forsaga málsins er sú að vorið 2019 sótti Austurbrú um styrk í Matarauð Íslands, sem vinnur að því m.a. að draga fram sérstöðu íslensks hráefnis og matarmenningar, fyrir verkefni sem kallast Matarauður Austurlands. Tilgangur þess var m.a. að útbúa hráefnahandbók þar sem finna mætti upplýsingar um alla framleiðendur og söluaðila matvæla á Austurlandi.  Upphaflega stóð til að gefa upplýsingarnar út í prentuðu formi en á seinni stigum gagnasöfnunar var ákveðið að útbúa frekar heimasíðu þar sem auðvelt væri að uppfæra upplýsingarnar, bæta við og breyta, auk þess sem aðgengi væri betra.

Vefurinn samræmist áherslum sem lagðar hafa verið til grundvallar í áfangastaðaáætlun Austurlands og sóknaráætlun landshlutans þar sem unnið er út frá gildum um sjálfbærni, umhverfisvitund og umhverfisvirðingu. Þá er verkefnið sem slíkt liður í byggðaþróun og tengist byggðaáætlun m.a. með því að stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga, auðga atvinnulíf, sporna við fólksfækkun og jafna tækifæri m.a. til atvinnu og þjónustu.

Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir er verkefnastjóri Matarauðs Austurlands. Hún segist afar ánægð með að vefurinn sé kominn í loftið og treystir á viðbrögð notenda í áframhaldandi þróun síðunnar.

 „Skammtímamarkmiðin eru helst þau að sem flestir rýni síðuna með okkur og sendi okkur uppbyggilegar ábendingar um það sem betur má fara, t.d. hverjir ættu heima þarna inni, sem eru ekki nú þegar komnir, hvort fyrirtæki sé rétt flokkuð, textinn á síðunni og annað slíkt,“ segir hún og heldur áfram:

„Langtímamarkmiðin eru þau að vefurinn verði alltaf lifandi og uppfærður með nýjustu upplýsingum hverju sinni og að þarna inni verði hægt að finna alla á Austurlandi sem hafa aðkomu að mat og matarmenningu á svæðinu.“ Þannig eiga íbúar á svæðinu og þeir góðu gestir sem okkur sækja heim að geta fundið þær upplýsingar sem þá vantar, t.d. um veitingastaði, matvöruverslanir, matarmarkaði og annað í þeim dúr. Þá væri gagnlegt ef hægt væri að þýða upplýsingarnar yfir á annað tungumál en það mun líklega ekki gerast á næstunni.“

Nánari upplýsingar


Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir

470 3871 // [email protected]