Erindi Austurbrúar

„Markaðssetning Austurlands sem heildar er að mínu mati eitt af því mikilvægasta sem Austurbrú sinnir“ – Auður Vala Gunnarsdóttir, ferðamálafrömuður á Austurlandi.

Samstarf skapar nánd

Reynsla Auðar Völu af ferðaþjónustu var ekki mikil þegar þau hjónin hófu reksturinn. „Það kom sér vel að tengjast Austurbrú í byrjun,“ segir hún. „Þegar maður kemur inn í þennan bransa finnur maður hvað tengslanetið skiptir miklu máli. Við vorum bæði í fullri vinnu meðfram rekstrinum og tengslanet Austurbrúar kom sér vel. Þá á ég ekki bara við Íslandsstofu, Íslenska ferðaklasann eða eitthvað slíkt. Smám saman kynntist maður líka öðrum ferðaþjónustuaðilunum á svæðinu sem Austurbrú starfar með,“ segir hún en formlegir samstarfsaðilar Austurbrúar eru um 170 talsins.

„Samstarf við aðra ferðaþjónustuaðila skapar nánd á milli fyrirtækja og maður sér betur hvar maður getur bætt sig,“ segir Auður og bætir við að ýmsir fræðslufundir, sem Austurbrú hafi staðið fyrir, hafi hjálpað sér að vera á tánum t.d. í málum er snúa að markaðssetningu.

„Markaðssetning Austurlands sem heildar er að mínu mati eitt af því mikilvægasta sem Austurbrú sinnir,“ segir hún. „Það er mjög öflugt gagnvart umhverfinu að við séum kynnt sem ein heild og maður tekur alveg eftir því þegar við komum fram sem einn hópur á ferðasýningum, með sameiginlegt „lúkk“, að þetta hefur góð áhrif á viðskiptavininn, vekur bæði traust og áhuga á landshlutanum.“

Stoltur Austfirðingur

Vörumerkið Austurland hefur verið hannað og þróað af Austurbrú sem tákn um austfirsk gæði. Auður Vala hefur sóst eftir því að nýta „Austurlands-stjörnuna“ á sínar vörur og lítur hún á þetta sem mikinn gæðastimpil. „Ég er stolt af því að vera frá Austurlandi og þess vegna tel ég þetta brýnt verkefni,“ segir hún. „Þetta eykur sýnileika okkar og er til marks um samstöðu innan svæðisins. Það skiptir hins vegar miklu máli að Austurbrú fylgi þessu vel eftir því það tekur tíma að innleiða svona verkefni og svona hugsun. Það yrði mikil gæfa fyrir okkur sem búum og störfum á Austurlandi ef við ynnum enn meira saman á næstu árum. Þá skiptir máli að Austurbrú sé trú sinni stefnu og framfylgi henni af krafti.“