Nemendur sem taka prófin í vor stunda nám við fjölmarga skóla, m.a. Háskólann á Akureyri, Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Landbúnaðarháskólann, Garðyrkjuskólann og í ýmsa framhaldsskóla. Þá aðstoðar Austurbrú einnig ýmis fyrirtæki sem þurfa að prófa starfsfólk, t.d. til ákveðinna réttinda, þannig að fjölbreytnin er mikil.

Þann 2. maí fóru fram tvö próf á Djúpavogi. Prófin sjálf voru með hefbundnu sniði en það óvenjulega var að próftakarnir tveir, þau Helga Björk Arnardóttir, nemi í kennslufræði við HÍ og Þór Albertsson, nemi í næringarfræði við HÍ, höfðu löngu áður verið í sama skóla. Mörgum árum fyrr var Helga Björk umsjónarkennari Þórs í leikskólanum Bjarkatúni á Djúpavogi. Vel fór á með þeim Helgu og Þór fyrir prófið og nýtti starfsmaður Austurbrúar á Djúpavogi tækifærið og smellti mynd af þeim. Þau náðu að rifja upp nokkrar skemmtilegar sögur úr leikskólanum, m.a. kaffitíma þar sem Þór átti erfitt með að sitja kyrr og endaði með annan hælinn ofan í mysingsdósinni. Fleiri skemmtilegar sögur voru rifjaðar upp en því miður far enginn mysingur í boði á kaffistofunni.

Aðspurð sagði Helga að fjarnám og það að geta tekið próf í heimabyggð væri forsenda þess að hún gæti verið í námi, enda á hún börn og fjölskyldu á Djúpavogi og starfar sem leiðbeinandi við Djúpavogsskóla. Þór sem stundar staðnám við HÍ sagði hins vegar að ástæðan fyrir því að hann kæmi heim til að taka prófin væri sú að hér væri meira næði til að læra, þægilegra að taka prófin í fámenninu og svo væri alltaf gott að vera á Hótel mömmu.

Það er mikilvægt að nemendur á Austurlandi átti sig á möguleikunum sem felast í því að taka prófin í heimabyggð, auk þess að nýta þjónustu starfsfólks Austurbrúar sem aðstoðar þá við ýmis konar úrlausnarefni og veitir ráðgjöf til þeirra sem eru 18 ára og eldri. Hjá Austurbrú starfa auk þess tveir námsráðgjafar sem hægt er að leita til en það eru þær Hrönn Grímsdóttir og Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir. Umsjónarmaður prófa er Jóhann Björn Sigurgeirsson.

 

 

Frekari upplýsingar


Hrönn Grímsdóttir

470 3833 // [email protected]


Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir

470 3827 // [email protected]


Jóhann Björn Sigurgeirsson

847 6571 // [email protected]