Verkefnið Matarauður Austurlands snýr að því að vekja athygli á austfirsku hráefni, austfirskum matarhefðum og tengir saman framleiðendur og söluaðila á svæðinu. Lögð er áhersla á hreinleika og ferskleika hráefnis, hollustu, einfaldleika og að maturinn sem á borð er borinn beri vitni um líðandi árstíð. Í haust verður því blásið til matarveislu með fjórum mismunandi matarupplifunarviðburðum.

Móðir Jörð og Matarauður Austurlands blása til fyrsta viðburðarins á morgun laugardag (3. október) í Vallanesi en þá munu húsráðendur halda kartöfluveislu þar sem Kári Þorsteinsson, matreiðslumaður á Nielsen Restaurant á Egilsstöðum, mun töfra fram kartöflurétti; frá forrétti til eftirréttar.

Auk þess verður ræktunarsagan rakin og gestum boðið að gæða sér á fjölda kartöfluafbrigða sem nú eru ræktuð á þessum sama stað og fyrir 268 árum. Upphaf grænmetisræktunar í Vallanesi er rakið til ársins 1752 þegar Páll Guðmundsson aðstoðarprestur í Vallanesi setti niður kartöflur og kál á Pálshúshól.

Í stuttu máli: Allt sem þú vildir vita um kartöflur, allt sem hægt er að gera við kartöflur, hvernig fer matargerðarlistin með þessi „nýju“ afbrigði af kartöflum?

  • Frekari upplýsingar um Jarðeplahátíðina í Vallanesi veitir Eygló Björk Ólafsdóttir, Móður Jörð í s. 899-6228.

Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir

470 3871 // [email protected]