„Okkur fannst mikilvægt að kynna landshlutann fyrir þeim og það voru allir sammála um að heimsóknin hafi verið gagnleg,“ segir Bjarni Þór Haraldsson, verkefnastjóri háskólagrunn HR á Austurlandi. „Við áttum góð samtöl við sveitarfélög, menntastofnanir, stofnanir og lykilfyrirtæki á svæðinu og ræddum framtíðina í þessum málum í landshlutanum,“ segir hann en hópurinn heimsótti RARIK, Landsvirkjun, Hallormsstaðaskóla, Vök, Fjarðaál, Menntaskólann á Egilsstöðum, Loðnuvinnsluna, Múlann í Neskaupstað, Síldarvinnsluna, Laxa, Verkmenntaskóla Austurlands auk þess að hitta fulltrúa Múlaþings og Fjarðabyggðar.

Bjarni segir að það séu spennandi tímar framundan. Skólanir vilji halda áfram að þróa námið og fyrirtæki og stofnanir á svæðinu séu samstarfsfús. „Í framhaldinu gáfum við okkur góðan tíma til að ræða hugmyndir sem kviknuðu í heimsókninni, drógum þær saman og skiptum með okkur verkum. Ég held að það sé óhætt að segja að það séu spennandi tímar framundan í menntamálum Austfirðinga. Það liggur fyrir að haldið verður áfram með háskólagrunn HR í haust en það er verið að skoða fleiri möguleika alvarlega.“

Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, tekur í sama streng og bætir við að það hafi verið sérstaklega ánægjulegt hversu vel atvinnulífið tók á móti hópnum. „Það er mjög gott að vita að allir sjái þörfina fyrir öflugt háskólanám í fjórðungnum og það sem við höfum verið að gera síðustu misseri er mikilvægur áfangi í þeirri vegferð.“