„Við höfum trú á þér“

„Þegar þú færð styrk er um leið verið að segja: „Við höfum trú á þér og hugmyndinni þinni,“ sem er afar gott veganesti fyrir alla frumkvöðla og getur verið mjög þýðingarmikið þegar sótt er um í aðra sjóði,“ segir Sævar hjá Ferðaþjónustunni Mjóeyri.

Vildu gera þetta vel frá byrjun

Sævar segir að styrkurinn frá Uppbyggðarsjóði hafi skipt miklu. „Fyrir utan það að styrkurinn hjálpar okkur að markaðssetja Austurland sem ákjósanlegan vetrarviðkomustað hefur hann gefið okkur tækifæri til að gera þetta almennilega frá upphafi. Eins og við vitum eru það oft litlu aðilarnir sem eru að prófa sig áfram með nýjar vörur, þjónustu eða þess vegna ákveðna hugsun, en hafa kannski ekki bolmagn til að gera hlutina eins vel og þeir gjarnan vildu fyrstu árin. Fyrir slíka aðila og slík verkefni er svona stuðningur mjög mikilvægur.“

Sævar hefur með Ferðafélagi Fjarðamanna staðið fyrir öðrum útivistarviðburði sem vakið hefur athygli landsmanna en það er gönguvikan „Á fætur í Fjarðabyggð“ sem fer fram síðustu vikuna í júní en þar er lögð áhersla á fjölbreyttar gönguleiðir við allra hæfi. „Austurland Freeride Festival er umfangsmeira og flóknara verkefni,“ segir Sævar. „Þetta er annað en að fara með fólk í gönguferð að sumarlagi þótt það geti verið áskorun líka. Það fylgir því sérstaklega mikil ábyrgð að beina fólki til fjalla á Austurlandi um miðjan vetur og þetta kallar á að við grandskoðum aðstæður gaumgæfilega og það gerum við m.a. með hjálp sérfræðinga sem við höfum þurft að sækja út fyrir Austurland. Við höfum líka náð okkur í menntun út fyrir landshlutann t.d. í snjóflóðaleit. En við viljum gera þetta almennilega svo hátíðin njóti trausts og virðingar skíða- og brettafólks og það kostar tíma, peninga og fyrirhöfn. Ég held að við getum alveg verið stolt af hversu vel allt hefur gengið fyrir sig frá upphafi. Engin áföll né vandræði heldur eiginlega þvert á móti. Gestir okkar hafa verið afar sáttir og skemmt sér frá morgni til kvölds.“

Vandaðu umsóknina

Við minnum á vinnustofur Uppbyggingarsjóðs Austurlands sem nú eru í gangi en þar veitir starfsfólk Austurbrúar ráðgjöf í gerð umsókna. Þá minnum við á hlaðvarpsþátt á Austurland hlaðvarp þar sem verkefnastjórar Uppbyggingarsjóðs Austurlands, þær Tinna Halldórsdóttir og Signý Ormarsdóttir, ræða m.a. um mikilvægi vandaðra umsókna.

Nánari upplýsingar


Tinna Kristbjörg Halldórsdóttir

470 3802 // [email protected]


Signý Ormarsdóttir

470 3811 // [email protected]